Dagur 11

Við skiluðum hjólunum á leiguna í morgun og vorum þá búnir að aka samtals 2.534 km í ferðinni.

Þetta er búin að vera mjög góð ferð og vandræðalítil.

Fengum alltaf gistingu fyrir allan 9 manna hópinn á sama hóteli, en það var nokkuð sem við höfðum áhyggjur af fyrirfram.

Bókuðum gjarnan gistinguna samdægurs og höfðum úr nægu gistirými að velja á hverjum degi.

Við þrír sem eftir stóðum síðustu dagana, fórum svo til Munchen og beint í mótorhjólabúðaleiðangur og á Block House í alvöru steik.

Ég vil þakka þeim sem kunna að hafa lesið þessar bloggfærslur mínar og vona að einhver hafi haft gaman að þessu með okkur.

Á morgun, sunnudag höldum við svo heim á leið eftir 12 daga ferðalag um Þýskaland, Frakkland, Sviss, Ítalíu og Austurríki.

Vörðum mestum tíma í Ölpunum, aðallega Ítalíumegin, n.t.t. í Suður-Týról en þar er paradís bifhjólamanna og margar af þeim leiðum sem Páll leiðangursstjóri valdi, eru á lista yfir bestu mótorhjólavegi í veröldinni.

Ég mun svo bæta inn fleiri myndum á allra næstu dögum.

 

Góðar stundir!


Dagur 10

Þegar við fórum á ról í Austurríki var byrjað á morgunmat og svo farið yfir daginn.

Eftir það fórum við á hátíðarsvæðið við Faaker See sem tók okkur 35-40 mín að aka.

Þar var mikil stemmning og mjög mörg mótorhjól.

Borðuðum hádegismat og skoðuðum í sölutjöldin en svo fórum við þrír sem eftir stóðu af stað til Salzburg í Þýskalandi.  Þegar á leið tókum við ákvörðun um að halda áfram til Munchen, n.t.t. til Erding.

Erum þar á ágætu hóteli nálægt mótorhjólaleigunni.

Við lentum í mikilli rigningu í dag ásamt öðrum hrakningum en við stóðum þetta af okkur og lukum deginum með 363 km akstri... að miklu leyti á hraðbraut, eða um 200 km.  Síðan fórum vuð út að borða hérna við hótelið en við vorum orðnir ansi þreyttir eftir daginn og ber þessi færsla þess merki.


Dagur 9

Fórum frá þessu fína hóteli í Saalfelden í Austurríki í mjög góðu veðri upp úr kl. 10 og héldum í áttina að Grossglockner Pass sem var vægast sagt skemmtileg leið, þurftum að greiða 26 EUR á mann fyrir að fá að aka yfir en það var hverrar krónu virði.

Stoppuðum á toppnum og fengum okkur hressingu og nutum útsýnisins í 2.430 m.y.s.

Stefnan var tekin á Faak Am See en þar er mikil hátíð bifhjólamanna, "Bike Week Europe 2018"

Leiðin lá svo áfram til Suðausturs og fljótlega tók veðrið að versna, þ.e.a.s. þrátt fyrir að hitastigið hafi aldrei farið niður fyrir 20°C þá byrjaði að rigna með þrumum og eldingum og þannig gekk þetta í nokkurn tíma.

Komumst þó allir heilir á áfangastað undir kvöld.

Erum á Hotel Sandwirth sem er um 40 km frá hátíðarsvæðinu sem er mjög stórt og þar koma saman allt að 125 þúsund bifhjólamenn á um 70 þúsund hjólum frá allri Evrópu... þetta er magnaður viðburður sem þyrfti sérstakan pistil til að lýsa og mun ég e.t.v. birta slíkan hérna síðar.

Í dag keyrðum við 257 km

 


Dagur 8

Við vorum komnir snemma á ról í morgun á Grand Hotel Europa í Innsbruck í Austurríki, sem er 5 stjörnu hótel í miðborginni... fengum þessa gistingu á spottprís þar eð þetta er "low season".

Eftir morgunmatinn var lagt af stað um kl. 9:15 áleiðis til Bad Reichenhall í Þýskalandi, n.t.t í Arnarhreiðrið... unditrritaður hafði komið þangað í tvígang en sumir voru að koma þangað í fyrsta sinn, en allir nutum við þess.

Þetta er mikil upplifun í alla staði, farið með sérsmíðaðri rútu upp í 1710 m.y.s. og svo gengið í göngum inn í fjallið, 124m og svo með lyftu upp 124m og komið upp í "borðsal".

Þarna snæddum við hádegisverð og nutum útsýnisins.

Eftir þetta skildu leiðir, þ.e.a.s. að enn fækkaði í hópnum, 4 liðsmenn kvöddu okkur og héldu í áttina til Munchen.

Þeir voru Páll (fararstjóri), Örn, Gísli Páll og Sigurjón.

Eftir stóðum við bræðurnir ásamt Gísla Sig.

Við héldum af stað til að hitta Björgvin, Sylvíu og Kristján á hóteli í Saalfelden í Austurríki þar sem við erum núna.

Í dag fengum við virkilega gott veður og á köflum var virkilega heitt í leðrinu.  Hitastigið fór í 24°C þegar hlýjast var seinni partinn.

Við ókum 236km í dag og telst það nokkuð gott m.t.t. þess að við vörðum 3-4 klst. í Arnarhreiðrinu.

 

 


Dagur 7

Dagurinn í dag hófst á morgunmat eins og allir aðrir dagar í ferðinni.

Kvöddum tvo úr hópnum sem fóru saman til Munchen, en við hinir 7 lögðum af stað kl. 10:45 frá Selva Val Gardena í Tyrol.  Veðrið var frábært.

Byrjuðum á að fara í Gardena Pass og svo Campolongo Pass á leið okkar um Sella Ronda... þessi leið var alveg frábær.

Við fórum líka í Pordoi Pass, Fedaia Pass, Giau Pass (magnað), Falzarego Pass og Valparola Pass.

Ókum svo gamla þjóðveginn í gegnum Brenner skarð yfir til Austurríkis og er það 5. landið sem við heimsækjum í þessari ferð okkar.

Dagurinn var SVO skemmtilegur að orð fá því varla lýst.

Hitastigið var 12-25°C og alltaf þurrt.

Við fórum úr ca. 1.600 m.y.s. í Selva í 2.058 m.y.s. og aftur niður í 1.006 m.y.s. og svo strax aftur yfir 2.000 m og þannig gekk þetta í margar klukkustundir.

"Serpentínurnar" (hárnálarbeygjurnar) voru svo margar að þær hafa talið mörg hundruð í dag.

Eftir daginn lágu rúmlega 270 km

Erum núna komnir til Innsbruck á fínasta hótel í miðborginni.

Á morgun er ætlunin að fara í Arnarhreiðrið (Kehlsteinhaus) við landamæri Austurríkis og Þýskalands.... nánar um það annað kvöld.

Góðar stundir!

 


Dagur 6 - kort

SmartSelect_20180903-233737_Connect


Dagur 6

Við vöknuðum á Hotel San Lorenzo í Bormio á Ítalíu (sem var frábært hótel í frábærum bæ) í fínu veðri og lögðum af stað yfir Stelvio Pass í mjög góðum skilyrðum og allt byrjaði mjög vel fyrstu 39,5km en þá stoppuðum við á toppnum í 2757 m.y.s...... en þá gerðist það að einn úr hópnum tók ranga beygju og þá upphófst mikil atburðarrás sem ætlaði engan enda að taka.

Í framhaldinu fórum við  til Merano að borða og svo í Gampen pass og svo Mendel pass sem svo reyndust vera alveg frábærar leiðir.

Eftir daginn lágu svo aðeins 214 km.

Við fengum allt frá 3,5°C og upp í 25°C og efst í Stelvio var snjór yfir öllu nema veginum sjálfum, enda nýlega búið að ryðja veginn.

Þetta var skrýtinn dagur en endaði þó vel.

Nú sitjum við hér allir níu að fara yfir daginn.

Erum á Hótel Miravalle í Selva Val Gardena sem er mjög vinsælt skíðasvæði sem undirritaður og fleiri úr hópnum ætlum að heimsækja í febrúar n.k. til að fara á skíði og njóta vetrarskilyrðanna til hins ítrasta.

 


Dagur 5 - kort

SmartSelect_20180902-231842_Connect


Dagur 5

Þegar við vöknuðum í morgun var sól og blíða í þessum svissneska smábæ.

Lögðum snemma af stað í áttina að San Bernandino Pass sem var alveg frábær leið og með hæsta punkt í 2330 m.y.s.

Eftir það tók við Splugen Pass sem hefði líklega verið betri ef ekki hefði verið komin rigning en hæðin þar var mest 2115 m.y.s.

Svo var það Majola Pass sem var aðeins lægri eða 1815 m.y.s.

Allar leiðirnar voru afar hlykkjóttar og því mjög skemmtilegar leiðir til mótorhjólaaksturs.

Skilyrðin hefðu þó á stundum mátt vera betri.

Snæddum hádegismat á Ítalíu en áttum svo eftir að fara aftur til Sviss áður en við enduðum hér í Bormio á norður Ítalíu... þetta er nokkuð stór bær og hótelið sem við dveljum núna á er mjög gott.

Skelltum okkur á steikhús í nágrenninu og svo í SPA hér á hótelinu.

Allir eru sáttir við ferðina og allt hefur gengið vel.

Við höfðum áhyggjur af því fyrir ferðina að það gæti reynst erfitt að bóka gistingu fyrir 9 manns með allt niður í 2ja klst. fyrirvara, en sú hefur ekki orðið raunin.

Í dag ókum við 263 km og eins og áður hefur komið fram hefur hitastigið verið mjög breytilegt og við þurftum að takast á við talsverða rigningu á köflum en fengum glampandi sól þess á milli.

 

 


Dagur 4 - kort

SmartSelect_20180901-190617_Connect


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband